21 June 2018

Aðalfundur Félags bústaðaeigenda í Múlabyggð 2018

Fundur haldinn þann 8. maí 2018 í safnaðarheimili Bústaðakirkju.

Mættir voru fulltrúar frá lóðum númer 36, 4, 33, 34, 3, 18, 20, 17, 24, 11, 30, 15, 2 (9 lóðir alls), 1 (2 lóðir), 37, 7, 19, 4, 12, 13, 29 og 29.

Dagskrá var samkvæmt aðalfundarboði
1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins og um vatnsveituna.
2. Staðfestur ársreikningur félagsins fyrir liðið reikningsár lagður fram til umræðu og samþykktar. Nær einnig yfir vatnsveitudeild, en rekstur hennar er sýndur sérstaklega í reikningunum.
3. Kosning formanns í samræmi við 6. gr.
4. Kosning annarra stjórnarmanna í samræmi við 6. gr.
5. Kosning varamanns/manna í samræmi við 6. gr.
6. Kosning skoðunarmanns/manna ársreikninga og varamanns.
7. Framlagning rekstrar- og framkvæmdaáætlunar fyrir næsta ár. Einnig fyrir vatnsveituna.
8. Ákvörðun um árgjald félagsins sem standa skal undir eðlilegu viðhaldi og rekstri skv. 15. gr. Einnig ákvörðun vatnsveitugjalds skv. samþykktum vatnsveitudeildar.
9. Mál sem tiltekin eru í fundarboði og afgreiðsla þeirra:
a. Lagabreytingar. Lagt er til að óbyggðar lóðir greiði lægra félagsgjald. Sjá meðfylgjandi tillögu að lagabreytingum.
b. Brennumál. Sjá meðfylgjandi Drög að ályktun um brennu.
10. Önnur mál.
Fundarstjóri var kjörin Þorvarður Kári, varamaður í stjórn (Sigurður, formaður félagsins var fjarverandi vegna veikinda) og fundarritari Guðrún Svanborg, ritari félagsins.

    1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins og um vatnsveituna
Guðrún Svanborg bar fram skýrsluna sem hljóðaði þannig:

Á tímabilinu sátu í stjórn :
Formaður Sigurður Lyngdal  (nr.7)
Ritari Guðrún Svanborg Hauksdóttir  (nr.36)
Gjaldkeri Fanný B Miiller Jóhannesdóttir  (nr.4)
Meðstjórnendur Aldís Magnea Norðfjörð  (nr.30)
Pétur Helgason (nr.12)
Varamenn Þorvarður Kári Ólafsson (nr.19)
Hildur Ingvarsdóttir  (nr.33 og 34)

Haldnir voru þrír fundir stjórnar. Helstu verkefni stjórnarinnar voru.

Vegir:
Ákveðið hafði verið að ráðast í úrbætur á sameiginlegum vegum innan svæðisins og þær myndu taka tvö til þrjú ár. Samið var við Hálfdán á Háhóli um að hann tæki að sér verkið. Hann byrjaði á að hefla vegina, þar sem hefillinn komst að. Setti síðan í stóran hluta þeirra (um 60%) ofaníburð, gott efni sem var keypt hjá Loftorku (hafði ranglega staðið Borgarverki).  Seinunnara verk er eftir.

Lóðarleigusamningar:
Í skýrslu stjórnar fyrir síðasta ár stendur: Stjórnin beitti sér fyrir því að allir leigutakar gætu gert nýja lóðarleigusamninga á árinu 2014 og fékkst inn ákvæði um slíkt í yfirtökusamning við landeiganda sem var undirritaður og þinglýst fyrir þremur árum síðan. Skemmst er frá því að segja að landeigandi hefur ekki efnt þetta ákvæði samkomulagsins.
Það sem gerst hefur þetta árið er að Guðni hefur boðið sumum nýja lóðaleigusamninga og einhverir hafa skrifað undir. Ekki er ljóst hvort leigan hefur lækkað hjá einhverjum og hvaðan Guðni hefur þær lóðastærðir sem hann tilgreinir á samningnum.

Lóðamörk:
Hnitin sem Guðni hefur vísað í reynast ekki vera til. Hnit samkvæmt deiliskipulagi hafa verið birt á vefnum geo.skra.is/landeignaskra. Einhversstaðar standast mörkin ekki, þau liggja þannig að hús lenda á annarra manna landi. Óljóst hvað gera skuli. Lausnin er líklega sú að lóðaeigandi og lóðaleigjandi hittist ásamt mælingarmanni, sættist á lóðarmörk. Þau séu síðan mæld og skráð.

Vatnsveita:
Rólegt var yfir vatnsveitumálum þetta árið.
Vatnslaust var í einhverjum bústöðum í vetur. Líklega hefur frosið, frost náði óvanaleg djúpt í jörð og víða liggja leiðslur grunnt. Leki er í kranakistu við eystra vatnsbólið, hugsanlega frostskemmdir síðan í vetur.
Líklega má alltaf búast við einhverjum gerlagróðri í vatninu, oftast alveg meinlausum. Stöku sinnum einhverjum saurbakteríum, en það er mun ólíklegra nú eftir úrbætur en áður. Líklega er eina leiðin til að tryggja alveg hreint vatn að hafa geislunartæki í hverjum bústað.
Enn á eftir að lækka yfirfall í eystra vatnsbólinu.

Girðingar:
Girðingadagur var haldinn í ágúst. Vel var unnið og lítið er ógert.

Lúpína:
Nokkrir slógu í sumar. Mikilvægt er að halda áfram í vor.

Netmiðlar og félagatal:
Þorvarður hefur séð um heimasíðuna, en hann hyggst nú hætta í stjórninni.
Félagið er með þrennskonar netmiðla, heimasíðu, Facebook síðu og póstlista í gegnum gmail. Póstlistinn er jafnframt félagatal, þar sem koma fram póstföng, símanúmer og hvernig viðkomandi tengist lóðinni (þinglýstur lóðarhafi eða ekki).

Brenna:
Hefur verið á ábyrgð félagsins. Bálköstur má ekki vera stærri en 1 m3 án þess að sótt sé um leyfi fyrir brennunni (hann hefur nú þegar náð þeim mörkum). Spurning hvort rétt sé að félagið sjái um brennu. Verði svo þarf að skipa umsjónaraðila brennu sem sæki um leyfi fyrir henni.
Mikilvægt að fara með rusl á móttökustöð í Borgarnesi en ekki setja það á brennuna.

Félagsgjöld fyrir lóðir án húsa:
Óánægja hefur komið fram með að borga fullt gjald fyrir óbyggðar lóðir. Sigurður Lyngdal hefur eftir Sveini, lögfræðingi Landsambands sumarhúsaeiganda, að ekki sé skylda að allir lóðarhafar borgi fullt gjald, hvert félag geti haft sitt lag á því. Stjórnin leggur fram þá tillögu á aðalfundi að eigendur óbyggðra lóða greiði hálft gjald.

Sorpmál:
Mikilvægt er að flokka og fara með stóran hluta sorps rusl á gámastöðina í Borgarnesi. Þar er opið virka daga frá 14:00 til 18:00, á laugardögum kl. 10:00 til 14:00 og sunnudögum kl. 14:00 til 18:00. Þar er, samkvæmt heimasíðu, tekið á móti pressanlegu, almennu sorpi, dagblöðum og tímaritum, bylgjupappa, fernum og sléttum pappa, plasti, málmum, fatnaði, dekkjum, heyrúlluplasti, timbri, járni, jarðvegi, spilliefnum s.s. rafhlöðum og rafgeymum, garðaúrgangi, raf- og rafeindatækjaúrgang og ökutækjum.

Klöppur og klöppuhengi:
Klöppum var dreift síðasta vor, nú eru tilbúin klöppuhengi sem eiga að vera á norðurvegg húsa.

Göngustígar innan hverfisins:
Sakvæmt deiliskipulagi er einn göngustígur innar hverfisins. Hann hefur lítið verið notaður og er nú kjarri vaxinn. Annars þarf að fara um einkalóðir til að komast að nyrðri mörkum hverfisins.

Girðingar:
Fyrst þegar hverfið byggðist átti að girða lóðir. Nú hafa reglurnar breyst, ekki á að girða (líklega er þó leyfilegt að girða af einkalóðir). Enn eru víða uppi gamlar girðingar.

Athugasemdir við skýrsluna: ranglega stóð Borgarverk í stað Loftorku. Aðrar athugasemdir bárust ekki.

    2. Staðfestur ársreikningur félagsins fyrir liðið reikningsár lagður fram til umræðu og samþykktar.  Nær einnig yfir vatnsveitudeild, en rekstur hennar er sýndur sérstaklega í reikningunum
Fanný kynnti reikningana. Skoðunarmenn höfðu ekki enn séð þá. Reikningar voru bornir upp með fyrirvara um undirskrift skoðunarmanna og voru samþykktir samhljóða.

    3. Kosning formanns í samræmi við 6. Gr.
Pétur Helgason (nr.12) féllst á að bjóða sig fram til formanns og var sjálfkjörinn.

    4. Kosning annarra stjórnarmanna í samræmi við 6. Gr.
Aldís (nr. 30) bauðst til áframhaldandi setu. Einar Jónsson (nr. 2), Snæbjörn Sigurðsson (nr. 1) og Birgir Einarsson (nr. 2) buðu sig fram. Öll sjálfkjörin

    5. Kosning varamanns/manna í samræmi við 6. gr.
Hildur (nr. 33 og 34) var til með að vera áfram. Magnea Antonsdóttir (nr. 7) bauð sig fram. Báðar voru sjálfkjörnar.

    6. Kosning skoðunarmanns/manna ársreikninga og varamanns
Sigmundur Andrésson kosin áfram, og Þorvarður Kári í stað Þórdísar.

    7. Framlagning rekstrar- og framkvæmdaáætlunar fyrir næsta ár
 Svo og fyrir vatnsveituna
Þorvarður lagði fram og kynnti rekstaráætlun 2018, tillögu fráfarandi stjórnar. Forsendur áætlunarinnar voru breytt árgjöld og vatnsveitugjöld, ásamt lagabreytingatillögum. Því var beðið með að bera upp kostnaðaráætlunina þar til eftir 8. og 9. Lið.
Verði tillögurnar að veruleika gengur nokkuð á sjóð félagsins, hann lækkar úr 2,5 milljónum króna í 1,8 milljón. Rétt væri að styrkja sjóðinn héðan í frá. Væntanlega minnkar kostnaður þegar vegaviðgerðum lýkur.

    8.  Ákvörðun um árgjald félagsins sem standa skal undir eðlilegu
 viðhaldi og rekstri skv. 15. Gr.
 Svo og vatnsveitugjalds skv. Samþykktum vatnsveitudeildar
Lögð til breytt gjöld, félagsgjald hækki í 30.000 kr. (úr 15.000 kr.) og vatnsveitugjald lækki í 12.500 kr. (úr 27.500 kr.).
Samþykkt samhljóða

    9.  Mál sem tiltekin eru í fundarboði og afgreiðsla þeirra:
a. Lagabreytingar. Lagt er til að óbyggðar lóðir greiði lægra félagsgjald. Sjá meðfylgjandi tillögu að lagabreytingum.
b. Brennumál. Sjá meðfylgjandi Drög að ályktun um brennu.
a. Lagabreytingartillögurnar:
2.gr: „Félagssvæðið er Múlabyggð Grímstöðum, 301 Borgarbyggð." Hljóði svo: „Félagasvæðið er Múlabyggð 1-37 Grímstöðum, 301 Borgarbyggð."
3.gr: hljóði svo: „Félagsmenn eru allir sem hafa umráð yfir úthlutaðri lóð á svæðinu. Breytingar á lóðarhafa skal tilkynna stjórn félagsins."
7.gr: Við 8.tölulið bætist eftirfarandi: „Óbyggðar lóðir greiða hálft árgjald."
8.gr: „Eitt atkvæði fylgir hverri lóð undir frístundahús og fer tilgreindur umráðamaður með atkvæðisréttin." Hljóði svo: „Eitt atkvæði fylgir hverri [byggðri] lóð og fer þinglýstur lóðarhafi með atkvæðisréttinn. Ef þinglýstir lóðarhafar eru fleiri en einn skulu þeir tilnefna einn úr sínum hópi sem fer með atkvæðisréttinn."
Samþykkt var samhljóða breytingartillaga við lagabreytingatillögurnar 8. greinar, þess efnis að eitt atkvæði fylgdi hverri lóð, orðið byggðri (innan hornklofa að ofan) væri tekið út.
Lagabreytingartillögurnar (án orðsins byggðri) voru samþykktar með öllum greiddum atkvæðum.

b. Drög að ályktun:
"Aðalfundur Félags bústaðaeigenda í Múlabyggð ályktar að hætt skuli með brennu sem tíðkast hefur um verslunarmannahelgi. Lóðarhafar eru hvattir til að endurnýta brennanlegan úrgang með öðrum hætti. Stjórn er falið að leita sameiginlegra leiða til að auðvelda það."
     Lagt var til að keyptur yrði kurlari, og þannig væri unnt að losna við greinaafskurð.
Talsverðar umræður sköpuðust. Ánægja var með að hafa brennu / varðeld (fer eftir stærð bálkastarins). Mikilvægt að setja einungis á hana hreint timbur og hlaða snyrtilega. Guðjón Bachmann (nr. 11) lýsti sig reiðubúinn til að sjá um brennuna.
Ályktunin var felld með yfirgnæfandi meirihluta (tvö atkvæði gegn þorra fundarmanna). Málinu var vísað til komandi stjórnar til frekari útfærslu.

Rekstraráætlun tekin til atkvæða
Var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

10. Önnur mál
• Haraldur (nr. 13) stefnir að því að fara með Hálfdáni á Háhóli að vestara vatnsbólinu og brjóta þar björg sem standa í vegi fyrir því að unnt sé að safna vatni undir urð sem þar er. Gangi það væri hægt að afla meira vatns vestan megin.
• Drenlögn opnast í yfirfall vestari vatnsveitunnar, þannig að lítið gæti verið í tanknum þótt komi úr yfirfallinu.
• Pétur Kristinsson (nr. 18, 17 og 20) mæltist til þess að fólk skermaði útiljós þannig að þau lýstu ekki á næstu lóðir.
• Guðjón (nr. 11) benti á að mjög æskilegt væri að merkja bústaði með númerum.
• Hildur (nr. 33 og 34) ræddi vatnsveituna. Vatnið hefur batnað verulega, en ekki er hægt að tryggja að vatnið verði alltaf alveg hreint. Hún kynnti lýsingartæki sem lýsa á vatnið með útfjólubláu ljósi og drepa gerla. Slíkt tæki mætti hafa í hverjum bústað til að tryggja að vatnið sé laust við saurgerla. Kveikt yrði á tækinu þegar komið væri í bústaðina og slökkt þegar farið er. Tækið kosta á bilinu 130.000 til 240.000, kr. en hugsanlega mætti fá magnafslátt.
• Pétur Helgason (nr. 12) samdi við Hálfdán á Háhóli um að hann tæki að sér að laga heimkeyrslur þeirra félagsmanna sem eftir því óska. Hálfdáni yrði borgað fyrir vinnuna en félagið sæi um að innheimta fyrir efnið, sem yrði það sama og notað er í vegina. 1 m3 af efni þekur um 15 m2 af vegi og kostar um 75.000 kr. Mikilvægt væri að merkja vel hvar efnið ætti að fara, eða að mæla sér mót við Hálfdán. Stjórnin útbýr síðu þar sem fólk getur farið fram á vegabæturnar.
• Vegurinn uppeftir er slæmur, verður heflaður þegar frost fer úr jörðu.
• Mikilvægt er að klippa greinar sem skaga út á vegi, er á ábyrgð lóðarhafa.
• Mjög mikilvægt er að slá lúpínu, og það áður en hún fer að blómstra.

Fundi var slitið kl. 21.46

1 comment:

  1. Góðan dag,
    èg hef áhuga að vita nánar um "Önnur mál" lið 1 og 2. Var tekin ákvörðun um að fèlagið myndi kosta til að fá Hálfdán til að brjóta klöppina og á að laga drenlögnina sem " opnast í yfirfalli vestari vatnsveitunnar"? Með kveðju Rúna Stefánsdóttir nr.9.

    ReplyDelete