02 October 2014

Um lóðarleigusamninga og landamerkjayfirlýsingu

Landeigandi hefur dregið að endurnýja lóðarleigusamninga á þeim forsendum að þeir þurfi að innihalda hnit lóðamarka, sem hann segist vera að afla. Liðnir eru 5 mánuðir frá því hann undirritaði skuldbindingu um að endurnýja alla lóðarleigusamninga á þessu ári, en ekkert bólar á umræddum hnitum, hvað þá samningunum sjálfum.

Nú er komið nýtt ferli um skráningu eignamarka með þinglýstri landamerkjayfirlýsingu fyrir hvert hverfi, sem gerir óþarft að tilgreina hnit í lóðarleigusamningum. Ekkert er því til fyrirstöðu að ganga frá lóðarleigusamningunum óháð landamerkjayfirlýsingu. Því hefur formaður skorað á landeiganda að hraða frágangi lóðarleigusamninga í samræmi við skuldbindingu, og boðið fram aðstoð við það, t.d. með því að afla undirritana félagsmanna.

Bréf sent landeiganda 2. október 2014:
Sæll Guðni, þú getur lesið um nýtt ferli fyrir staðfestingu eignamarka á þessari síðu: http://www.skra.is/fasteignaskra/skraning-landeigna/uppmaeling-landamerkja-og-stadfesting-eignamarka/ 
Eins og ég sagði í símann mæli ég með að þú leitir nánari leiðbeininga um frágang landamerkjayfirlýsingar hjá byggingarfulltrúa Borgarbyggðar. Ég er tilbúinn til að aðstoða við þá vinnu, sérstaklega með því að kynna félagsmönnum málið og afla undirritana þeirra á landamerkjayfirlýsinguna þegar þar að kemur, sem ég tel raunhæft með vorinu.
En hins vegar liggur mun meira á lóðarleigusamningunum. Eins og ég sagði þér í símann þá er óþarfi og í raun tvíverknaður að tilgreina hnit í lóðarleigusamningum, að ekki sé talað um hættuna á villum og ósamræmi. Eðlilegast er að lóðarleigusamningar vísi í gildandi deiliskipulag og þinglýst eignarmörk á hverjum tíma. Því er ekkert því til fyrirstöðu að endurnýja lóðarleigusamningana strax, óháð fyrrgreindri vinnu við landamerkjayfirlýsingu, enda vorum við vorum búnir að ná samkomulagi um texta samninganna þegar í vor.
Það er orðið mjög brýnt að endurnýja lóðarleigusamningana og því skora ég á þig að hraða frágangi þeirra í samræmi við skuldbindingu þína í samkomulagi frá í vor. Sem formaður félagsins býðst ég til að aðstoða við þá vinnu, t.d. með því að afla undirritana félagsmanna á samningana.
Með kveðju, Þorvarður