05 September 2011

Aðalfundargerð 2010


Aðalfundur félags bústaðareigenda Múlabyggð, haldinn 20. apríl 2010 kl. 20
Fundarstaður: Stórhöfði 31, húsnæði Rafiðnaðarsambandsins og fleiri.
Fundarritari: Kristín Anna Stefánsdóttir, ritari stjórnar

1.         Skýrsla stjórnar
Snorri formaður sagði frá helstu störfum stjórnar á liðnu starfsári. Í vegamálum gerðist það  að stjórnin skrifaði Borgarbyggð og fékk frekar neikvætt svar sem lesa má á vef félagsins. Í vatnsmálum hefur það helst borið til tíðinda að heilbrigðisfulltrúi Vesturlands skrifaði landeiganda bréf, en ekkert hefur enn komið út úr því. Varðandi girðingarmálin þá sendi stjórnin landeiganda bréf fyrr í vetur með tillögu að kostnaðarskiptingu, en hann hefur ekki brugðist við því.

2.         Reikningar félagsins
Haraldur Dungal gjaldkeri gerði grein fyrir ársreikningi félagsins, sem kjörnir skoðunarmenn reikninga höfðu endurskoðað. Hann var samþykktur.

3.         Kosning stjórnar
Þrír stjórnarmenn gáfu ekki kost á sér til endurkjörs og í fundarboði var skorað á félagsmenn að gefa kost á sér til stjórnarsetu.
Þorvarður Kári Ólafsson var kjörinn formaður. Einnig voru kjörnir í stjórn Björn Gunnarsson, Haraldur Jónsson, Pétur Kristinsson og Sigmundur Andrésson, og í varastjórn þau Kristín Anna Stefánsdóttir og Ari Hauksson. Stjórnin skiptir nánar með sér verkum.

4.         Kosning skoðunarmanna
Hjalti Schiöth og Hildur Ingvarsdóttir voru kjörin skoðunarmenn ársreikninga og Aldís Norðfjörð til vara.

5.         Tillaga að lagabreytingu
Vegna breytinga á lögum um frístundabyggðir er nauðsynlegt að endurskoða lög félags bústaðaeigenda í Múlabyggð þannig að þau séu í samræmi við núgildandi landslög. Tillaga að nýjum lögum var rædd á síðasta aðalfundi (í nóvember 2009) og lögð fyrir þennan aðalfund með fundarboði. Samkvæmt eldri lögum félagsins þarf minnst helmingur félagsmanna að sækja fundinn til að gera lagabreytingu. Það skilyrði reyndist uppfyllt á þessum fundi og var lagabreytingin samþykkt einróma. Þar með starfar félag sumarhúsaeiganda Múlabyggðar eftir settum reglum.

6.         Félagsgjald
Samþykkt að gjaldið verði óbreytt, 5000 krónur.

7.         Önnur mál
Girðingamál og vegamál: Óskað var eftir að stjórnin tali við lögmann sumarhúsa um að knýja fram girðingarmálin og láta landeiganda standa skil á sínu, lögum samkvæmt. Fundarmenn lýstu óánægju sinni með að þurfa að borga fasteignagjöld og fá ekki einu sinni almennilegan veg, sbr. afsvar Borgarbyggðar þar að lútandi. Tekin var fyrir tillaga stjórnar um að setja 300 þúsund í að laga girðingar og ef um það semst við landeiganda að gera við vegina að bústöðum. Hún var samþykkt með 2 mótatkvæðum.

Vatnsmál: Fram kom fyrirspurn um hvort ekki fari að sjá fyrir endann á þeim vatnsmálum sem hafa brunnið á okkur í um 20 ár. Samþykkt var að stjórn knýi að öllum reglum þ.e að láta Umhverfisstofnun fylgja eftir vatnsveitumálunum.

Fram kom fyrirspurn um hvort hægt væri að hafa ruslagáma nær sumarhúsabyggðinni, en ekki fékkst svar við því á fundinum.

Fundi slitið 21:30