23 September 2014

Minnisblað sérfræðings um vatnsbólin í Múlabyggð

Minnispunktar og myndir teknar saman af Þórólfi Hafstað og Hildi Ingvarsdóttur 26.8.2014

Minnismiðinn er settur saman í framhaldi af vettvangsferð í blíðviðri þann 22. ágúst 2014.  Á vatns­veitinni eru um 40 bústaðir. Vatn er fengið úr tveimur bólum og er dreifikerfið tvískipt. Því hefur lýst í samantekt stjórnar Félags bústaðaeigenda í Múlabyggð frá 5. febrúar 2014 „Staða vatnsveitu­mála í Múlabyggð“ og er alfarið vísað til hennar um staðhætti, rennslismælingar sem og almennt ástand veitunnar. Mynd 1 sýnir einungis yfirlit um afstöðu bóla og bústaða.

Mynd 1. Myndin sýnir þá bústaði eða lóðir, sem upp koma á vef Þjóðskrár Íslands (skra.is) eftir leitarorðinu“Múlabyggð“. Inn á myndina er laumað nokkurn veginn staðsetningu á vatnsbólunum.

Austara vatnsbólið



Mynd 2. Myndin á að sýna hvað gera þarf á yfirborði við austara vatnsbólið.



Mynd 3. Myndin sýnir nánar aðstæður í efra vatnsbólinu. Helstu viðgerðarþættir eru tilgreindir. Vakin er athygli á að verulegt vatnsmagn geymist í púkkinu kring um brunnana, sem er í lokuðu þrýstisambandi við miðlunartankinn þarna ögn neðar. Þegar púkkið tekur ekki lengur við rennur lækur frá svæðinu; nú ½ l/s.


Mynd 4. Myndin sýnir yfirlit um svolítið lindarrennsli austan við vatnsbólin (sjá „smá“ á mynd 1).

Vestara vatnsbólið

Mynd 5. Myndin sýnir toppa á tveimur samtengdum miðlunartönkum og yfirlit um hvað þarf að gera þar.

Mynd 6. Myndin sýnir afstöðu nýja tanksins á vestara svæði til svolítils lindarrennslis í grenndinni. Þarna er ekki mikils vatns von en ef eitthvað vatn fengist er þaðan sjálfrennandi að vestari veitunni.


Mynd 7. Myndin sýnir innrennsli í (gamla tankinn) á vesta vatnsbólssvæðinu föstudaginn 22. ágúst. Þetta er nú ekki merkileg buna og viðbúið að það verður að fá þarna meira vatn til að tryggt sé að þessi partur veitunnar verði ekki vatnslaus í þurrkatíð á sumrum eða þá eftir vetrarhörkur. Samt var ekki þurrkasumar!


Mynd 8. Myndin sýnir yfirlit um svolítið lindarrennsli vestan við vatnsbólin (sjá „smá“ á mynd 1).

Spottakorn vestan við vestara vatnsbólssvæðið er lindarvætla (mynd 8), sem er hartnær sambærileg og sýnd er á mynd  4. Þessari ´ærmigu´ verður ekki veitt sjálfrennandi í tank en stutt er frá henni er einn af vestustu bústöðunum og þangað mætti veita þessum smáleka inn á kerfið og dæla inná ef eitthvað er hér stöðugt rennsli.
Mælt er með að næstu aðgerðir verði gerðar í þrepum og þeim með svofelldum hætti:
1.      Bæta úr gerlamengunarhættu. Þær aðgerðir, sem hér hefur verið imprað á myndum, beinast að því að bæta vatnsgæðin en minna til að auka rennslið.
2.      Taka þarf afstöðu til næstu aðgerða til að auka fáanlegt vatn. Eftir að umbætur hafa verið gerðar til að tryggja heilnæmt vatn á austara svæði er inni í myndinni að tengja umfram­rennsli þaðan yfir á vestari veituna. Þarna var umframvatn að fá þegar skoðað var. Ekki er visst um sjálfrennsli þarna í milli en það talið líklegt.
3.      Þegar og ef enn meira vatns er þörf í þessari frístundabyggð er rétt að huga að róttækum breytingum á neysluvatnsöflun. Hingað til er vatnstaka einungis miðuð við misvel vatns­gefandi smálindir og sjálfrennsli frá þeim en kröfur bústaðaeigenda eru að geta alltaf gengið að rennandi gæðaneysluvatni.
4.      Virkja smálindir sitt hvoru megin núverandi vatnsbóla, leiða vatn að næsta bústað og dæla svolitlu vatni inn á dreifikerfin þegar á þarf að halda (þá samtengd til að nýta allt vatnið).
5.      Mögulegt er að gera sæmileg vatnsból í brunnum, sem grafa má í ármöl við bakka Stekksár og Urriðaár en, austan og vestan Múlabyggðar.  Báðar þessar ár eru í raun aumingjalegir og e.t.v. hverfulir lækir. Samt er við þá grunnvatnsvon en aðeins úr gröfnum dælubrunnum.


Framtíðarmúsíkin (sbr. lið 5)

Frekari möguleikar liggja fyrst og fremst í eyrum ánna tveggja; Stekksár og Urriðaár:


Mynd 9. Myndin sýnir afar grófan farveg Stekksár. Meðfram henni rennur grunnvatn í malareyrinni.


Mynd 10. Urriðaármölin er á köflum alls ekki ekki fínni og fallegri en Stekksármölin Víða er grunnt niður á fasta klöpp og þess vegna ekki alltaf á vísan að róa til að fá góðan filter fyrir neysluvatn.

Möguleg borun?  Á þessu svæði er talin vera lítil von til að borun í fast berg beri árangur. Ekki er hægt að búast við nema kannski hálfum sekúndulítra úr  100 metra djúpri holu. Kostnaður vegna borunar er sjálfsagt ekki undir 2 milljónum (bora og virkja). Slík hola getur hentað 2-3 bústöðum

No comments:

Post a Comment