23 September 2014

Framkvæmdir í september 2014

Austara vatnsbólið

Lokið er framkvæmdum samkvæmt myndum 2 og 3 í minnisblaði sérfræðings, tyrfa og girða umhverfis inntakstunnur og sá í öll sár.
 

Vestara vatnsbólið

Hluta af því sem lagt var til á myndum 5 og 6 í minnisblaði sérfræðings er lokið. Búið er að hylja báða tankana, grafa rás frá neðri inntakstunnu og taka tvær prufuholur við skriður í nágrenninu. Í ljós kom að neðri inntakstunnan er stífluð og eftir er að hreinsa mold frá henni og setja grús, um leið og hún verður hækkuð. Fylgst verður með prufuholunum í vetur.
  
Stjórnin

Minnisblað sérfræðings um vatnsbólin í Múlabyggð

Minnispunktar og myndir teknar saman af Þórólfi Hafstað og Hildi Ingvarsdóttur 26.8.2014

Minnismiðinn er settur saman í framhaldi af vettvangsferð í blíðviðri þann 22. ágúst 2014.  Á vatns­veitinni eru um 40 bústaðir. Vatn er fengið úr tveimur bólum og er dreifikerfið tvískipt. Því hefur lýst í samantekt stjórnar Félags bústaðaeigenda í Múlabyggð frá 5. febrúar 2014 „Staða vatnsveitu­mála í Múlabyggð“ og er alfarið vísað til hennar um staðhætti, rennslismælingar sem og almennt ástand veitunnar. Mynd 1 sýnir einungis yfirlit um afstöðu bóla og bústaða.

Mynd 1. Myndin sýnir þá bústaði eða lóðir, sem upp koma á vef Þjóðskrár Íslands (skra.is) eftir leitarorðinu“Múlabyggð“. Inn á myndina er laumað nokkurn veginn staðsetningu á vatnsbólunum.

Austara vatnsbólið



Mynd 2. Myndin á að sýna hvað gera þarf á yfirborði við austara vatnsbólið.



Mynd 3. Myndin sýnir nánar aðstæður í efra vatnsbólinu. Helstu viðgerðarþættir eru tilgreindir. Vakin er athygli á að verulegt vatnsmagn geymist í púkkinu kring um brunnana, sem er í lokuðu þrýstisambandi við miðlunartankinn þarna ögn neðar. Þegar púkkið tekur ekki lengur við rennur lækur frá svæðinu; nú ½ l/s.


Mynd 4. Myndin sýnir yfirlit um svolítið lindarrennsli austan við vatnsbólin (sjá „smá“ á mynd 1).

Vestara vatnsbólið

Mynd 5. Myndin sýnir toppa á tveimur samtengdum miðlunartönkum og yfirlit um hvað þarf að gera þar.

Mynd 6. Myndin sýnir afstöðu nýja tanksins á vestara svæði til svolítils lindarrennslis í grenndinni. Þarna er ekki mikils vatns von en ef eitthvað vatn fengist er þaðan sjálfrennandi að vestari veitunni.


Mynd 7. Myndin sýnir innrennsli í (gamla tankinn) á vesta vatnsbólssvæðinu föstudaginn 22. ágúst. Þetta er nú ekki merkileg buna og viðbúið að það verður að fá þarna meira vatn til að tryggt sé að þessi partur veitunnar verði ekki vatnslaus í þurrkatíð á sumrum eða þá eftir vetrarhörkur. Samt var ekki þurrkasumar!


Mynd 8. Myndin sýnir yfirlit um svolítið lindarrennsli vestan við vatnsbólin (sjá „smá“ á mynd 1).

Spottakorn vestan við vestara vatnsbólssvæðið er lindarvætla (mynd 8), sem er hartnær sambærileg og sýnd er á mynd  4. Þessari ´ærmigu´ verður ekki veitt sjálfrennandi í tank en stutt er frá henni er einn af vestustu bústöðunum og þangað mætti veita þessum smáleka inn á kerfið og dæla inná ef eitthvað er hér stöðugt rennsli.
Mælt er með að næstu aðgerðir verði gerðar í þrepum og þeim með svofelldum hætti:
1.      Bæta úr gerlamengunarhættu. Þær aðgerðir, sem hér hefur verið imprað á myndum, beinast að því að bæta vatnsgæðin en minna til að auka rennslið.
2.      Taka þarf afstöðu til næstu aðgerða til að auka fáanlegt vatn. Eftir að umbætur hafa verið gerðar til að tryggja heilnæmt vatn á austara svæði er inni í myndinni að tengja umfram­rennsli þaðan yfir á vestari veituna. Þarna var umframvatn að fá þegar skoðað var. Ekki er visst um sjálfrennsli þarna í milli en það talið líklegt.
3.      Þegar og ef enn meira vatns er þörf í þessari frístundabyggð er rétt að huga að róttækum breytingum á neysluvatnsöflun. Hingað til er vatnstaka einungis miðuð við misvel vatns­gefandi smálindir og sjálfrennsli frá þeim en kröfur bústaðaeigenda eru að geta alltaf gengið að rennandi gæðaneysluvatni.
4.      Virkja smálindir sitt hvoru megin núverandi vatnsbóla, leiða vatn að næsta bústað og dæla svolitlu vatni inn á dreifikerfin þegar á þarf að halda (þá samtengd til að nýta allt vatnið).
5.      Mögulegt er að gera sæmileg vatnsból í brunnum, sem grafa má í ármöl við bakka Stekksár og Urriðaár en, austan og vestan Múlabyggðar.  Báðar þessar ár eru í raun aumingjalegir og e.t.v. hverfulir lækir. Samt er við þá grunnvatnsvon en aðeins úr gröfnum dælubrunnum.


Framtíðarmúsíkin (sbr. lið 5)

Frekari möguleikar liggja fyrst og fremst í eyrum ánna tveggja; Stekksár og Urriðaár:


Mynd 9. Myndin sýnir afar grófan farveg Stekksár. Meðfram henni rennur grunnvatn í malareyrinni.


Mynd 10. Urriðaármölin er á köflum alls ekki ekki fínni og fallegri en Stekksármölin Víða er grunnt niður á fasta klöpp og þess vegna ekki alltaf á vísan að róa til að fá góðan filter fyrir neysluvatn.

Möguleg borun?  Á þessu svæði er talin vera lítil von til að borun í fast berg beri árangur. Ekki er hægt að búast við nema kannski hálfum sekúndulítra úr  100 metra djúpri holu. Kostnaður vegna borunar er sjálfsagt ekki undir 2 milljónum (bora og virkja). Slík hola getur hentað 2-3 bústöðum

Stjórn félagsins 2014-2015

Þorvarður Kári Ólafsson, formaður (nr.19)

Fanný Miiller Jóhannsdóttir, gjaldkeri (nr.4)
Guðrún Svanborg Hauksdóttir, ritari (nr.36)

Pétur Kristinsson (nr.17,18,20) 
Sigmundur Andrésson (nr.24)

Varamenn: Haraldur Jónsson (nr.13) og Hildur Ingvarsdóttir (nr.33,34).

Kosin á aðalfundi félagsins 29. apríl 2014.

Netfang stjórnar er mulabyggd@gmail.com

22 September 2014

Lög félags bústaðaeigenda í Múlabyggð, eftir breytingar 2014

Samþykktir
fyrir félag bústaðaeigenda í Múlabyggð, Grímstöðum, Borgarbyggð
(eftir breytingar á aðalfundi 2014)

1. gr.
Heiti félags
Félagið heitir Félag bústaðaeigenda í Múlabyggð (skammstafað FBM).
Varnarþing þess er hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

2. gr.
Stofnun félags
Félagið var stofnaði í mars 1993 og starfar í samræmi við 17. gr. laga nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóðar undir frístundahús Félagssvæðið er Múlabyggð Grímstöðum, 301 Borgarbyggð.
Félagið er aðili að Landssambandi sumarhúsaeigenda fyrir hönd félagsmanna sinna.

3. gr.
Félagsmenn
Félagsmenn eru allir þeir sem hafa umráð yfir lóð undir frístundahús á svæðinu. Sama gildir um umráðamenn lóða án húss.
Eigendaskipti skal tilkynna stjórn félagsins.

4. gr.
Hlutverk
Hlutverk félagsins er:
  1. Að gæta hagsmuna félagsmanna.
  2. Að koma fram fyrir þeirra hönd gagvart leigusala.
  3. Að hlutast til um að umgengni og framkvæmdir á svæðinu valdi sem minnstri röskun.
  4. Að taka ákvarðanir um verkefni samkvæmt 19.gr. laga um frístundabyggð.

5. gr.
Sameiginlegar veitur
Ákveði aðalfundur að reka sameiginlega aðveitu eða fráveitu skulu gerðar skriflegar samþykktir um þann rekstur og honum haldið aðskildum frá almennum rekstri félagsins.

6. gr.
Skipun stjórnar
Stjórn félagsins skipa fimm (5) menn úr hópi félagsmanna sem kjörnir eru til eins árs í senn á aðalfundi. Formaður skal kjörinn sérstaklega en stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum þannig að einn sé ritari, einn gjaldkeri og aðrir meðstjórnendur. Einnig skal kjósa einn/tvo varamann/menn.
Boða skal varamann til stjórnarfundar þegar aðalmaður boðar forföll eða þegar stjórnarmaður óskar þess.

7. gr.
Aðalfundur
Aðalfund skal halda árlega fyrir 1. júní. Fer hann með æðsta vald í málefnum félagsins.
Aðalfund skal stjórnin boða bréflega til tilgreindra umráðamanna frístundalóða með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Boða má fund með tölvubréfi á það póstfang sem forráðamaður hefur látið stjórninni í té og telst það fullnægjandi svo fremi að ekki komi boð um það til sendanda að tölvubréfið hafi ekki komist til skila. Í fundarboði skal greina fundartíma, fundarstað og dagskrá. Þá skal geta þeirra mála sem ræða á og samantekt á efni þeirra tillagna sem leggja á fyrir fundinn.
Fundurinn telst lögmætur ef minnst þriðjungur félagsmanna sækir fundinn. Ef tilskilinn fjöldi félagsmanna mætir ekki á löglega boðaðan fund skal hann endurtekinn eftir skriflega boðun, með að lágmarki viku fyrirvara, og telst hann þá lögmætur með þeim fjölda félagsmanna, sem mæta seinna skiptið.
Dagskrá aðalfundar er sem hér segir:
  1. skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins,
  2. staðfestur ársreikningur félagsins fyrir liðið reikningsár lagður fram til umræðu og samþykktar,
  3. kosning formanns í samræmi við 6. gr.,
  4. kosning annarra stjórnarmanna í samræmi við 6. gr.,
  5. kosning varamanns/manna í samræmi við 6. gr.,
  6. kosning skoðunarmanns/manna ársreikninga og varamanns,
  7. framlagning rekstrar- og framkvæmdaáætlunar fyrir næsta ár,
  8. ákvörðun um árgjald félagsins sem standa skal undir eðlilegu viðhaldi og rekstri skv. 15. gr.
  9. mál sem tiltekin eru í fundarboði og afgreiðsla þeirra,
  10. önnur mál
Hafi stjórn ekki boðað til aðalfundar 1. október er þeim félagsmönnum sem vilja halda fund heimilt að boða hann í samræmi við 1. mgr. og kjósa nýja stjórn sem telst réttkjörin í stað fyrri stjórnar.

8. gr.
Atkvæði
Eitt atkvæði fylgir hverri lóð undir frístundahús og fer tilgreindur umráðamaður með atkvæðisréttin. Afl atkvæða ræður úrslitum mála annarra en þeirra sem fjallað er um í 11. gr. og 19. gr.

9. gr.
Skipting kostnaðar og lögveð
Kostnaður skiptist að jöfnu og ræðst af fjölda lóða undir frístundahús á félagssvæðinu. Umráðamanni lóðar undir frístundahús er skylt að greiða sinn hluta kostnaðar sem hlýst af ákvörðun sem löglega hefur verið tekin.
Greiði félagsmaður ekki hlutdeild sína í sameiginlegum kostnaði og í félagssjóð á gjalddaga eignast félagið lögveð í eign hans á félagssvæðinu, þ.m.t. í leigulóðasamningi, til tryggingar kröfunni. Lögveðið nær einnig til vaxta og innheimtukostnaðar af kröfunni ef því er að skipta. Lögveðinu skal fylgja eftir með lögsókn eða því lýst við nauðungasölu innan árs frá stofnun þess. Viðurkenning eigenda utan réttar nægir ekki til að rjúfa fyrningu.

10. gr.
Fundarseta
Rétt til fundarsetu hafa félagsmenn, makar þeirra og sambúðaraðilar. Sambúðaraðili í skilningi samþykkta þessara er einstaklingur sem er í skráðri sambúð með leigutaka eða umráðamanni lóðar undir frístundahús, í frístundabyggð.
Félagsmaður má veita sérhverjum lögráða manni umboð til að mæta á fundi og greiða atkvæði. Skal umboðsmaður leggja fram á fundinum skriflegt og dagsett umboð. Slíkt umboð má hvenær sem er afturkalla.
Þegar tveir eða fleiri eru eigendur eða leigjendur að lóð skulu þeir tilkynna stjórn félagsins hver skuli teljast umráðmaður hennar samkvæmt samþykktum þessum og fer með atkvæðisrétt, fær fundarboð og kröfu um greiðslu gjalda til félagsins.

11. gr.
Sérstakar ákvarðanir
Ef lögð er fram tillaga á fundi félagsins samkvæmt auglýstri dagskrá í fundarboði um að ráðast í framkvæmdir eða stofna til kostnaðar sem leiða til útgjalda sem eru umfram venjulegan rekstrarkostnað félagsins skal sú tillaga talin samþykkt hljóti hún samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða og minnst þriðjungur félagsmanna sækir fundinn.

12. gr.
Valdsvið stjórnar
Stjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Stjórnin getur boðað til félagsfunda eins oft og þurfa þykir. Til funda skal boða bréflega með tveggja vikna fyrirvara á sama hátt og aðalfund.
Skylt er að boða til félagsfundar ef fjórðungur félagsmanna krefst þess skriflega
Stjórnin getur ekki bundið félagsmenn fjárhagslega.

13. gr.
Gerðarbók
Stjórn félagsins skal halda gerðarbók yfir bæði stjórnarfundi og félagsfundi
Í fundargerðarbók skal skrá yfirlit yfir allt það sem gerðist á félagsfundi og ákvarðanir hans. Fundargerðin skal undirrituð af ritara fundar og fundarstjóra. Fundargerðin er síðan full sönnun þess sem fram hefur farið á fundinum. Sama gildir með fundi stjórnarinnar.
Á fundum félagsins skulu allir félagsaðilar eða umboðsmenn þeirra sem sitja fundinn skrá nafn sitt í fundargerðabók eða fundarsóknarbók og fyrir hvaða lóð eða bústað þeir sitja fundinn.
Fundargerð hvers félagsfundar svo og samþykktan ársreikning og félagaskrá skal senda umráðamanni lóðar innan þriggja (3) vikna frá fundi á tölvupóstfang sem þeir láta stjórn félagsins í té. Aðrir félagsmenn (geta óskað eftir því að) fá gögnin send í pósti.
(Ath. ef félagið heldur úti heimasíðu eða gefur út fréttablað ætti að orða seinni mgr. í samræmi við það.)



14. gr.
Nefndarskipun
Stjórninni er heimilt að skipa nefndir til sérstakra verkefna ef henni þykir ástæða til.


15. gr.
Gjalddagi
Gjalddagi árgjalds skv. 6. gr. skal vera 1 mars og eindagi 15 dögum síðar. Gjalddagi framkvæmdagjalds sem ákvarðað er skv. 11. gr. skal vera tilgreint við samþykkt þess.

16. gr.
Reikningsárið
Reikningsár félagsins er almanaksárið.

17. gr.
Slit félagsins
Ef ekki er lengur tilgangur fyrir tilvist félagsins má slíta því með einföldum meirihluta og ákveður fundurinn ráðstöfun eigna sem félagið kann að eiga. Boða skal þá sérstaklega til fundarins vegna tillagna um niðurlagningu félagsins.

18. gr.
Þinglýsing samþykkta
Stjórn félagsins skal hlutast til um það að samþykktum þessum verði þinglýst á allar fasteignir og lóðasamninga og lóðir sem tilheyra félagssvæðinu svo og breytingum sem kunna að verða gerðar á samþykktum þessum.

19. gr.
Breytingar á samþykktum þessum
Breytingar á samþykktum þessum verða aðeins gerðar á aðalfundi með samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillaga um breytingu verður einungis tekin til afgreiðslu að hún hafi verið kynnt í aðalfundarboði og minnst þriðjungur félagsmanna sæki fundinn.

Fundargerð aðalfundar í Félagi bústaðaeigenda í Múlabyggð haldinn hinn 29. apríl 2014

Formaður Þorvarður Kári Ólafsson setti fund kl. 20:20
Formaður var valinn fundarstjóri og Þorbjörn Jónsson fundarritari.
Lögmæti fundarins kannað. Bláir atkvæðaseðlar gildir við afgreiðslu á vatnsveitumáli. Alls 44 lóðarhafar í félaginu, 29 voru mættir sem þýddi að gera mátti lagabreytingar (þarf >50%) á fundinum.
Gengið var til dagskrár:
  1. Skýrsla stjórnar kynnt af formanni. Sex fundir voru haldnir á starfsárinu. Einnig fundað með fulltrúum landeiganda og lögfræðingi Landsambands sumarhúsaeigenda.
Unnið að gerð samnings um vatnsveitumál. Ítarleg grein var gerð fyrir því á fundi í mars 2014. Mæting var þá ekki nægjanleg til afgreiðslu málsins. Stjórn beitti sér fyrir því að allir með útrunna lóðarsamninga geti gætu gert nýja samninga.
Skýrsla stjórnar samþykkt samhljóða.
  1. Ársreikningur félagsins lagður fram af gjaldkera.
Reynt var að innheimta gömul árgjöld. Það tókst að innheimta 4 gjöld, annað var afskrifað. Rekstrarkostnaður félagsins jókst milli ára, aðallega vegna vatnsveitumálsins. Rekstur neikvæður um kr. 107.000,- á árinu 2013.
Ársreikningur var borinn upp og samþykktur samhljóða.
  1. Kosning formanns.
Þorvarður Kári Ólafsson gaf einn kost á sér, og var hann því sjálfkjörinn.
  1. Kosning annarra stjórnarmanna.
Allir úr fyrri stjórn gáfu kost á sér áfram nema Björn.
Fanný Jóhannsdóttir var kjörinn nýr gjaldkeri.
Hildur og Haraldur valin í varastjórn.
  1. Kosning varamanna.
Endurkjörnir frá fyrra ári.
  1. Kosning skoðunarmanna ársreikninga og varamanns.
Endurkjörnir frá fyrra ári.
  1. Rekstraráætlun.
Það má búast við auknum rekstarkostnaði vegna vega, girðinga og vatnsveitu. Enginn töluleg áætlun var lögð fram.
  1. Árgjald.
Formaður lagði til óbreytt árgjald kr. 7.500,-.Samþykkt samhljóða.
  1. Mál tiltekin í fundargerð:
    1. Kynning á ástandi vatnsveitu, vega og girðinga. Hildur gerði grein fyrir ástandi vatnsveitumála á greinargóðan og myndrænan hátt. Vatnsveitan hefur ekki starfsleyfi, heilbrigðiseftirlitið hefur gert ítrekaðar athugasemdir við vatnsveituna. Staða mála óbreytt frá árinu 2010. Haraldur kynnti þær framkvæmdir í vatnsveitumálum sem farið hafði verið í og leggja þarf í. Fór síðan yfir ástand vega- og girðingamála. Fjörug umræða um vatnsveitumálin að framsögu Hildar og Haraldar lokinni. Einkum var rætt um óvissu við kostað ef vatnsveitan yrði yfirtekin af bústaðaeigendum og leigjendum.
    1. Kynning á nýjum lóðarleigusamningum. Formaður kynnti einstaka liði nýs samnings. Ný lóðarleiga verður kr. 27.500,- lægri en eldri leiga. Allir lóðarhafar munu eiga kost á að ganga inn í nýjan leigusamning til 20 ára.
    1. Lagabreytingar kynntar af formanni. Umræður:
      1. 4.grein laganna fjallar um hlutverk félagsins. Lagt var til að síðasti liður hennar (sem í eldri lögum fjallaði um samskipta- og umgengnisreglur) hljóði svo:
4. Að taka ákvarðanir um verkefni samkvæmt 19.gr. laga um frístundabyggð.
Samþykkt samhljóða.
      1. Lagt var til að 5.grein laganna (sem í eldri lögum fjallaði um tilgang félagsins) hljóði svo:
5.gr Sameiginlegar veiturÁkveði aðalfundur að reka sameiginlega aðveitu eða fráveitu skulu gerðar skriflegar samþykktir um þann rekstur og honum haldið aðskildum frá almennum rekstri félagsins.
Samþykkt samhljóða
      1. Lagt er til að 19.grein laganna (sem áður kvað á um helmings fundarsókn til lagabreytinga) hljóði svo:
Breytingar á samþykktum þessum verða aðeins gerðar á aðalfundi með samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillaga um breytingu verður einungis tekin til afgreiðslu að hún hafi verið kynnt í aðalfundarboði og minnst þriðjungur félagsmanna sæki fundinn.
Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu.
    1. Staðfesting á samningi um yfirtöku á reksti vatnsveitu, vega og girðinga. Formaður kynnti breytingar á samningsatriðum frá seinasta fundi. Um var að ræða nokkrar orðalagsbreytingar og að öllum byðist að gera nýjan samning. Spurningum fundarmanna var svarað af stjórninni.Samningurinn var samþykktur samhljóða.
    1. Vatnsveitusamþykktir. Formaður fór í gegnum tillögur að samþykkt fyrir vatnsveitudeild félagsins, alls 7 greinar. Borið upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.
    1. Gjaldskrá fyrir vatnsveitu Múlabyggðar. Lagt til að árgjaldið yrði kr. 55.000,- per lóð fyrir árið 2014 og stofngjaldið kr. 300.000,-. Stjórn áætlar að árgjald þurfi að vera tvöfalt eldra vatnsveitugjaldi í um það bil 2 ár. Lagt var til að lóðum nr. 17, 20, 28, 32, 33 gefist kostur á vera með í vatnsveitunni frá upphafi gegn greiðslu árgjalds, en án þess að greiða sérstakt stofngjald, og var það samþykkt samhljóða.Gjaldskrá samþykkt samhljóða
  1. Önnur mál
    1. Spurt um rétt Guðna Haraldssonar til þess að byggja á nýjum lóðum. Formaður og stjórnarmenn svöruðu fyrirspurnum.
    1. Sjónvarpsmál. Útsendingum á eldra formi (analog) hefur verið hætt. Athygli vakin á að menn þurfa nú stafrænan móttakara til að ná útsendingu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 22:30

09 September 2014

Um hreinsun rotþróa í Múlabyggð


Sveitarfélagið Borgarbyggð sér um að hreinsa seyru úr rotþróm samkvæmt gildandi reglum hverju sinni. Síðasta tæming var gerð í júlí 2012.

Eigendur geta fylgst með hreinsun við sín hús með því að skrá sig inn gegnum þessa síðu: http://borgarbyggd.is/pages/box-a-forsidu/thjonusta-vid-ibua/rotthroakortid/

Eigendur sumarhúsa verða að tryggja góðan aðgang að rotþró til tæmingar og merkja losunarop þannig að auðvelt sé að finna það.
Tæming og flutningur.
14. gr.
14.1 Sveitarstjórnir skulu sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm.
14.2 Rekstraraðilar húsnæðis eða svæða þar sem salernisúrgangur, ristarúrgangur eða seyra fellur til bera ábyrgð á allri meðferð og flutningi úrgangsins, svo fremi ekki sé í gildi sérstök heilbrigðissamþykkt sem kveður á um annað.