13 November 2011

Umgengnisreglur samþykktar

Félag sumarhúsaeigenda í Múlabyggð
Umgengnisreglur samþykktar á aðalfundi 2011
  1. Almennt:
Sumarhúsaeigendur og gestir þeirra skulu gæta þess að ganga vel um sumarhúsasvæðið í Múlabyggð. Íbúar og gestir þeirra skulu ekki skilja eftir rusl á víðavangi og ekki valda spjöllum á gróðri. Ennfremur skal forðast að valda öðrum íbúum ónæði með hávaða.
  1. Ljós og gróður:
Öll útilýsing skal höfð í lágmarki og útiljósum beint niður á við til að koma í veg fyrir ljósmengun. Kappkosta skal að halda vexti trjáa í því horfi að ekki skerði útsýni á sumarhúsasvæðinu.
  1. Notkun vatns:
Sumarhúsaeigendur skulu gæta þess að kranar, lagnir og búnaður fyrir kalt neysluvatn sé ávallt í lagi frá stofnlögnum og að húsum þeirra. Vökvun lóða og gróðurs á lóðum og áfylling í heita potta er bönnuð á álagstímum þegar vatnsöflun er ekki næg. Gæta skal þess að vatnskranar og tengibúnaður við lóðamörk séu rétt meðhöndlaðir, þannig að veitukerfið tæmist ekki af þeim sökum.
  1. Þungaflutningar í hverfunum:
Verði lóðarhafi í Múlabyggð valdur að skemmdum á vegum í sumarhúsabyggðinni vegna þungaflutninga og/eða framkvæmda, þá skal hann bæta það tjón að fullu og sjá til þess á sinn kostnað, að vegirnir verði lagfærðir í sama horf og þeir voru fyrir tjónið.
  1. Meðferð elds :
Meðferð opins elds er bönnuð á sumarhúsasvæðinu. Eld má einungis tendra í þar til gerðum útigrillum og útiarinstæðum og ávallt skal gæta fyllstu varkárni og öryggis við meðferð elds í slíkum búnaði.
  1. Dýrahald:
Lausaganga dýra er óheimil á sumarhúsasvæðinu. Þó er heimilt að halda dýr innan eigin lóðar.
  1. Birting þessara reglna:
Eigendur skulu kynna þessar reglur fyrir gestium sínum.

Aðalfundur félags bústaðaeigenda í Múlabyggð 2011


Aðalfundur félags bústaðaeigenda í Múlabyggð 2011 haldinn 6. september 2011 kl. 20
Fundarstaður: Stórhöfði 31, húsnæði Rafiðnaðarsambandsins.
Fundur settur
     Fundarstjóri var valinn Þorvarður Kári Ólafsson.
     Fundarritari var valin Kristín Anna Stefánsdóttir.
     Mættir voru fulltrúar 20 lóða.

1. Skýrsla stjórnar
Þorvarður formaður flutti skýrslu stjórnar:
Ný stjórn Félags bústaðaeigenda Múlabyggð tók við í apríl 2010. Stjórnin hélt þrjá fundi á árinu og auk þess einn með lögfræðingi LSSH.
Í vatnsmálum bar það til tíðinda að heilbrigðiseftirlit Vesturlands fyrirskipaði lokun vatnsveitunnar í júlí 2010, eftir að kólígerlar mældust í vatnsbólinu og komst málið í fjölmiðla. Reyndar hefur enn ekki orðið af þessari fyrirskipuðu lokun, en landeigandi réðist í einhverjar lágmarksúrbætur (girti og læsti lokum). Ekki er vitað hver gæði vatnsins eru í dag og er fólki því enn ráðlagt að sjóða allt neysluvatn.  Í sumar sem leið bar síðan á verulegum vatnsskorti og berast böndin að lagnakerfi vatnsveitunnar, sem virðist fyllast af lofti í þurrkatíð, en mjög erfitt hefur reynst að komast til botns í þeim vanda. Stjórnin hefur fundað um vatnsmálin með lögfræðingi LSSH, og hann skrifaði bréf til heilbrigðseftilitsins og umhverfisstofnunar í júlí sl., en þau hafa engin viðbrögð sýnt enn.
Girðingamál og vegamál hafa einnig verið til umfjöllunar hjá stjórn og eru þau nú í nánari skoðun hjá lögfræðingi LSSH. Lögfræðingurinn mun síðar á fundinum skýra betur út þau úrræði sem við höfum í þessum helstu þremur hjartans málum félagsmanna (vantsmálum, girðingamálum og vegamálum).
Auk þessara hefðbundnu baráttumála félagsins hafa umgengnismálin einnig verið til umfjöllunar og liggur nú fyrir tillaga að umgengnisreglum sem verða bornar undir atkvæði hér á eftir.
Í stuttum umræðum um skýrsluna var m.a. haft eftir heilbrigðisfulltrúa að hann hyggist taka sýni úr vatnsbólinu í haust. Einnig kom fram að vegurinn meðfram hverfinu er óviðunandi í alla staði.

2. Reikningar félagsins
Björn Gunnarsson gjaldkeri gerði grein fyrir ársreikningi félagsins, sem kjörnir skoðunarmenn reikninga höfðu endurskoðað. Hann var samþykktur einróma.

3. Kosning formanns
Þorvarður Kári Ólafsson (nr.19) gaf áfram kost á sér og var endurkjörinn formaður.

4. Kosning annarra stjórnarmanna
Björn Gunnarsson (nr.10), Haraldur Jónsson (nr.13), Pétur Kristinsson (nr.18.20,17) og Sigmundur Andrésson (nr.24) gáfu áfram kost á sér og voru allir endurkjörnir í stjórn.

5. Kosning varamanna í stjórn
Í varastjórn voru kjörnir þeir Ari Hauksson (nr.30) og Ágúst Sigurðsson (nr.31,32).

6. Kosning skoðunarmanna
Hjalti Schiöth (nr.25) og Hildur Ingvarsdóttir (nr.4) voru endurkjörin skoðunarmenn ársreikninga og Aldís Norðfjörð (nr.30) til vara.

7. Áætlun næsta árs
Starfið framundan snýst um að skýra lagalega stöðu félagsins í helstu málum og fylgja henni eftir. Ef til framkvæmda kemur þarf að taka ákvörðun um þær á fundi.

8. Ákvörðun um árgjald
Samþykkt einróma að gjaldið verði óbreytt, 5000 krónur.

9. Mál sem tiltekin eru í fundarboði
Fyrir fundinum lá tillaga stjórnar að umgengisreglum í 8 greinum. Greinarnar voru ræddar hver fyrir sig:
1.gr. var samþykkt óbreytt.
2.gr: síðasta setning var felld brott.
3.gr. var felld brott.
4.gr: fyrirsögn breytt í “Notkun vatns”, "þegar vatnsöflun er ekki næg" kemur í stað "þar sem vatnsgeymar hvers svæðis tæmast fljótt við slíka vatnsnotkun" og síðasta setning var felld brott.
5.gr. var samþykkt óbreytt.
6.gr: “svo og meðferð flugelda” var fellt brott.
7.gr: “þ.m.t.  hunda, katta og annarra gæludýra” var fellt brott og bætt við “Þó er heimilt að halda dýr innan eigin lóðar”.
8.gr. hljóði svo: “Eigendur skulu kynna reglur þessar fyrir gestum sínum”.
Þannig breyttar voru umgengnisreglurnar samþykktar.

10. Önnur mál
Sveinn Guðmundsson, lögfræðingur LSSH var mættur á fundinn til að ræða við félagsmenn réttarstöðu og úrræði varðandi helstu baráttumál félagsins, sem eru vatnsmál, girðingamál og vegamál.
Vatnsveitumálin: Baráttan byrjaði árið 2007 með tilheyrandi bréfaskrifum og fundarsetum. Mjög erfitt virðist vera að þoka þessum málum þó talað sé hafi verið margoft við heilbrigðisnefnd og aðra. Hægt er að beita dagsektum og nú er málið komið á það stig að kæra þarf heilbrigðisnefnd vegna aðgerðaleysis. Sveinn ætlar að sjá um að gera það á næstu vikum.
Vegakerfið: Sveinn segir vegagerðina ekki gera neitt við veginn hjá okkur, okkar vegur er C-vegur og það er landeiganda að sjá um veginn ásamt þeim sem nota hann til að komast að Grenjum og Langá og upp í Grenjadal. Sveinn er að kanna möguleika á að fá veginn skilgreindan sem sveitarfélagsveg vegna fjölbreyttrar notkunar hans. Stjórn fær skýrslu um þá athugun innan mánaðar.
Girðingamál: Samkvæmt nýjum lögum skal landeigandi girða sinn úthring til að koma í veg fyrir að dýr hans fari inn á land annarra. Ef hann sinnir því ekki megum við girða sjálf á kostnað hans, að undangengnum formlegum tilkynningum og frestum.
Að lokum fór Sveinn yfir hvernig standa þurfi að málum þegar leigusamningar eru að renna út.

Fundi slitið 22:10

05 September 2011

Aðalfundargerð 2010


Aðalfundur félags bústaðareigenda Múlabyggð, haldinn 20. apríl 2010 kl. 20
Fundarstaður: Stórhöfði 31, húsnæði Rafiðnaðarsambandsins og fleiri.
Fundarritari: Kristín Anna Stefánsdóttir, ritari stjórnar

1.         Skýrsla stjórnar
Snorri formaður sagði frá helstu störfum stjórnar á liðnu starfsári. Í vegamálum gerðist það  að stjórnin skrifaði Borgarbyggð og fékk frekar neikvætt svar sem lesa má á vef félagsins. Í vatnsmálum hefur það helst borið til tíðinda að heilbrigðisfulltrúi Vesturlands skrifaði landeiganda bréf, en ekkert hefur enn komið út úr því. Varðandi girðingarmálin þá sendi stjórnin landeiganda bréf fyrr í vetur með tillögu að kostnaðarskiptingu, en hann hefur ekki brugðist við því.

2.         Reikningar félagsins
Haraldur Dungal gjaldkeri gerði grein fyrir ársreikningi félagsins, sem kjörnir skoðunarmenn reikninga höfðu endurskoðað. Hann var samþykktur.

3.         Kosning stjórnar
Þrír stjórnarmenn gáfu ekki kost á sér til endurkjörs og í fundarboði var skorað á félagsmenn að gefa kost á sér til stjórnarsetu.
Þorvarður Kári Ólafsson var kjörinn formaður. Einnig voru kjörnir í stjórn Björn Gunnarsson, Haraldur Jónsson, Pétur Kristinsson og Sigmundur Andrésson, og í varastjórn þau Kristín Anna Stefánsdóttir og Ari Hauksson. Stjórnin skiptir nánar með sér verkum.

4.         Kosning skoðunarmanna
Hjalti Schiöth og Hildur Ingvarsdóttir voru kjörin skoðunarmenn ársreikninga og Aldís Norðfjörð til vara.

5.         Tillaga að lagabreytingu
Vegna breytinga á lögum um frístundabyggðir er nauðsynlegt að endurskoða lög félags bústaðaeigenda í Múlabyggð þannig að þau séu í samræmi við núgildandi landslög. Tillaga að nýjum lögum var rædd á síðasta aðalfundi (í nóvember 2009) og lögð fyrir þennan aðalfund með fundarboði. Samkvæmt eldri lögum félagsins þarf minnst helmingur félagsmanna að sækja fundinn til að gera lagabreytingu. Það skilyrði reyndist uppfyllt á þessum fundi og var lagabreytingin samþykkt einróma. Þar með starfar félag sumarhúsaeiganda Múlabyggðar eftir settum reglum.

6.         Félagsgjald
Samþykkt að gjaldið verði óbreytt, 5000 krónur.

7.         Önnur mál
Girðingamál og vegamál: Óskað var eftir að stjórnin tali við lögmann sumarhúsa um að knýja fram girðingarmálin og láta landeiganda standa skil á sínu, lögum samkvæmt. Fundarmenn lýstu óánægju sinni með að þurfa að borga fasteignagjöld og fá ekki einu sinni almennilegan veg, sbr. afsvar Borgarbyggðar þar að lútandi. Tekin var fyrir tillaga stjórnar um að setja 300 þúsund í að laga girðingar og ef um það semst við landeiganda að gera við vegina að bústöðum. Hún var samþykkt með 2 mótatkvæðum.

Vatnsmál: Fram kom fyrirspurn um hvort ekki fari að sjá fyrir endann á þeim vatnsmálum sem hafa brunnið á okkur í um 20 ár. Samþykkt var að stjórn knýi að öllum reglum þ.e að láta Umhverfisstofnun fylgja eftir vatnsveitumálunum.

Fram kom fyrirspurn um hvort hægt væri að hafa ruslagáma nær sumarhúsabyggðinni, en ekki fékkst svar við því á fundinum.

Fundi slitið 21:30

22 August 2011

Fundarboð - Aðalfundur félagsins 6. sept 2011

Aðalfundur Félags sumarhúsaeigenda í Múlabyggð verður haldinn þriðjudaginn 6. september næstkomandi, kl 20.00.

Fundarstaðurinn er að Stórhöfða 31, sal Rafiðnaðarsambandsins (gengið inn að neðanverðu við húsið)

Fundarefni er skv. lögum félagsins:
1.         Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins,
2.         Staðfestur ársreikningur félagsins fyrir liðið reikningsár lagður fram til umræðu og samþykktar,
3.         Kosning formanns í samræmi við 6. gr.,
4.         Kosning annarra stjórnarmanna í samræmi við 6. gr.,
5.         Kosning varamanns/manna í samræmi við 6. gr.,
6.         Kosning skoðunarmanns/manna ársreikninga og varamanns,
7.         Framlagning rekstrar- og framkvæmdaáætlunar fyrir næsta ár,
8.         Ákvörðun um árgjald félagsins sem standa skal undir eðlilegu viðhaldi og rekstri skv. 15. gr.
9.         Mál sem tiltekin eru í fundarboði og afgreiðsla þeirra,
10.       Önnur mál

Undir lið 9 verður tekin fyrir tillaga stjórnar að umgengnisreglum, sem fylgir þessu fundarboði. 
Lögfræðingur Landssambands sumarhúsaeigenda mun einnig koma á fundinn til að ræða við okkur þau úrræði sem við höfum varðandi helstu baráttumál félagsins.

Frekari upplýsingar á heimasíðu félagsins: http://mulabyggd.blogspot.com/

Fyrir hönd stjórnar,
Þorvarður Kári Ólafsson formaður

Umgengnisreglur Múlabyggðar

Félag sumarhúsaeigenda í Múlabyggð - Umgengnisreglur
Tillaga stjórnar 18. ágúst 2011

1.    Almennt:
Sumarhúsaeigendur og gestir þeirra skulu gæta þess að ganga vel  um sumarhúsasvæðið í Múlabyggð. Íbúar og gestir þeirra skulu ekki skilja eftir rusl á víðavangi og ekki valda spjöllum á gróðri. Ennfremur skal forðast að valda öðrum íbúum ónæði með hávaða.

2.    Ljós og gróður:
Öll útilýsing skal höfð í lágmarki og útiljósum beint niður á við til að koma í veg fyrir ljósmengun. Kappkosta skal að halda vexti trjáa í því horfi að ekki skerði útsýni á sumarhúsasvæðinu. Bannað er að gróðursetja hávaxnar trjátegundir, svo sem aspir og greni.

3.    Akstur torfærutækja:
Akstur og umferð torfærutækja, s.s. fjórhjóla, sexhjóla og mótorkrosshjóla er bannaður  hvort heldur sem er utan vega eða á vegum sumarhúsasvæðisins.

4.    Notkun kalda vatnsins:
Sumarhúsaeigendur skulu gæta þess að kranar, lagnir og búnaður fyrir kalt neysluvatn sé ávallt í lagi frá stofnlögnum og að húsum þeirra. Vökvun lóða og gróðurs á lóðum og áfylling í heita potta er bönnuð á álagstímum, þar sem vatnsgeymar hvers svæðis tæmast fljótt við slíka vatnsnotkun. Gæta skal þess að vatnskranar og tengibúnaður við lóðamörk séu rétt meðhöndlaðir, þannig að veitukerfið tæmist ekki af þeim sökum. Sama gildir um hitaveitulagnir, komi hitaveita á svæðið.

5.    Þungaflutningar í hverfunum:
Verði lóðarhafi í Múlabyggð valdur að skemmdum á vegum í sumarhúsabyggðinni vegna þungaflutninga og/eða framkvæmda, þá skal hann bæta það tjón að fullu og sjá til þess á sinn kostnað, að vegirnir verði lagfærðir í sama horf og þeir voru fyrir tjónið.

6.    Meðferð elds :
Meðferð opins elds svo og meðferð flugelda er bönnuð á sumarhúsasvæðinu. Eld má einungis tendra í þar til gerðum útigrillum og útiarinstæðum og ávallt skal gæta fyllstu varkárni og öryggis við meðferð elds í slíkum búnaði.

7.    Dýrahald:
Lausaganga dýra, þ.m.t.  hunda, katta og annarra gæludýra er óheimil á sumarhúsasvæðinu. 

8.    Birting þessara reglna:
Reglur þessar skulu hanga á áberandi stað í hverjum bústað til leiðbeininga fyrir gesti.