17 June 2015

Fullur þrýstingur kominn á vatnið á vestara svæðinu

Framkvæmdir á vestursvæðinu hafa gengið vel og í gærkvöldi var hleypt vatni á tankana. Þeir voru orðnir fullir um hádegi í dag (6000 lítrar alls). Talsvert af lofti komst í lögnina við framkvæmdirnar, en vegna góðs þrýstings og lagfæringa á lofttappa rétt við tankana gekk vandræðalaust að losna við loftið. Nú er góður vatnsþrýstingur á vestara svæðinu. Vel að verki staðið Haraldur og félagar.

Hér eru nokkrar myndir frá framkvæmdunum:

Svona litu framkvæmdirnar út frá vegi 535. 

Byrjað var á að skipta um jarðveg og aðra tunnuna í vatnsbólinu.


Hér sjást bæði vatnsbólin á vestara svæðinu. Eftir er að hækka stútinn á því nýja og tyrfa yfir.


Nýi 4000L tankurinn kominn niður í stað þess eldgamla 1000L sem sést á kerru í baksýn. 2000L tankurinn hægra megin er enn í notkun (hliðtengdur) og kallast nú gamli tankur. Lækka þurfti lagnirnar undir veginum því þær lágu upp á við og mynduðu lofttappa sem nú er horfinn.


Hér er búið að tengja nýja tankinn við þann gamla og allar stofnæðar. Ofan við tankinn sést í lögnina frá vatnsbólinu, sem var tengd stuttu síðar og vatni hleypt á kerfið.

Næsta skref er að setja aftöppunarkrana á millitengið, setja kistu utanum kranana, moka svo að nýja tankinum, ganga betur frá yfirfalli og sá í sárin. Einnig þarf að hækka stútinn á nýja vatnsbólinu og tyrfa þar yfir. Í framhaldinu er ætlunin að bæta við þriðja vatnsbólinu um 50m vestar og tengja það inn á gamla tankinn.

No comments:

Post a Comment