Stjórnin hélt þrjá fundi á starfsárinu og auk þess þrjá með lögfræðingi Landssambands sumarhúsaeigenda. Einnig hefur verið fundað með landeiganda. Hin hefðbundnu 3 stórmál félagsins voru enn til umfjöllunar.
Nú hefur fjórða málið bæst við, sem er framlenging leigusamninga. Ef lóðarhafar gæta ekki að sér geta þeir misst öll réttindi, sjá greinargerð stjórnar sem fjallað verður nánar um undir lið 10 á aðalfundi.
Eitt af hefðbundnu málum eru girðingarnar, en þær virðast nú að mestu í lagi, fyrir utan einn hornstaur á svæði 1, sem hefur gengið illa að festa almennilega.
Annað mál, sem lengi hefur verið óvissa um er viðhald vegarins meðfram hverfinu. Þar sem Grenjar eru komnar í ábúð hefur Vegagerðin nú tekið ábyrgð á veginum þangað, sem þýðir að hann verður heflaður/lagaður einu sinni á ári. Í júlí á síðasta ári var vegur 535 heflaður alla leið inn að Grenjum. Vegurinn fyrir neðan Múlabyggð kom ótrúlega vel undan þeirri heflun, en nú dugar heflun ekki lengur til og á þessu ári er unnið að ofaníburði, að því er virðist með svipaðri aðferð og beitt var neðar á vegi 535 fyrir nokkrum árum síðan. Aldrei þessu vant er þá eitt af hinum þremur hefðbundnu stóru málum félagsins komið á beinu brautina.
Vatnsveitan hefur verið helsta umfjöllunarefni stjórnar. Á síðasta aðalfundi var stjórninni falið að ræða við landeiganda um möguleika á stofnun félags um vatnsveituna. Í þeim viðræðum kom fram ósk landeiganda um að félagið tæki yfir vatnsveituna. Nokkur tilboð gengu á milli, en þegar aðalfundur var boðaður höfðu samningar ekki náðst. Í dag var hins vegar undirritað samkomulag um yfirtöku vatnsveitunnar, með fyrirvara um samþykki félagsfundar. Undir lið 7 á aðalfundi verður því tekin fyrir tillaga stjórnar um fjárútlát vegna úrbóta á vatnsveitu í samræmi við hið nýja samkomulag. Nánar verður fjallað um samkomulagið undir þeim lið.
Fyrir hönd stjórnar
Þorvarður Kári Ólafsson, formaður
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment