Samantekt
stjórnar Félags bústaðaeigenda í Múlabyggð
5.
febrúar 2014
Inngangur
Í skýrslu þessari
er staða vatnsveitunnar í Múlabyggð reifuð eins og hún blasir við stjórn Félags
bústaðaeigenda í Múlabyggð veturinn 2013/2014.
Frá síðastliðnu sumri (2013) hafa stjórnarmeðlimir kynnt sér
vatnsveituna eftir bestu getu og gert ákveðnar úrbætur svo meta megi vatnsgæfni
vatnsbólanna eins og þau eru virkjuð í dag.
Einnig hafa verið tekin sýni til að meta heilnæmi vatnsins og settir
lofttæmilokar sem tilraun til að bæta úr tregðu í vatnsrennsli á vestara
svæði.
Í stjórn sitja
þegar þessi skýrsla er skrifuð:
Þorvarður Kári Ólafsson, formaður (nr. 19)
Björn Gunnarsson, gjaldkeri
(nr. 10)
Guðrún Svanborg Hauksdóttir,
ritari (nr. 36)
Pétur Kristinsson (nr. 17, 18, 20)
Sigmundur Andrésson (nr.
24)
Varamenn:
Haraldur Jónsson (nr. 13)
Hildur Ingvarsdóttir (nr. 33,34)
Upplýsingar
í skýrslunni byggja m.a. á fyrirliggjandi uppdráttum, upplýsingum frá Guðna,
ábendingum frá Guðmundi Brynjúlfssyni pípulagningamanni, bréfum
Heilbrigðiseftirlits Vesturlands o.fl.,
1. Vatnsbólin og tilheyrandi veitur
Vatnsbólin og
tilheyrandi veitur sem hér verður fjallað um eru tvö og nefnum við þau vestara
og eystra vatnsból/veitu Ekki er
fjallað um vatnsveitu sem fyrrum Eimskipafélagsbústaðir nýta.
Eystra vatnsból og veita
Eystra vatnsbólið
þjónar lóðum 22-37. Frá vatnsbólinu
liggur 63 mm lögn og svo tveir stofnar út frá henni eins og sést á teikningu (rissað eftir leiðbeiningum í
vettvangsferð með Guðna sumarið 2013).
Vatnssöfnun fer fram á svæði sem girt var árið 2010 (að sögn Guðna). Umhverfis tunnur er
hraunpúkk og virkar hraunpúkkið sem svelgur eins og staðan
er í dag. Slíkur svelgur er góður til
þess að drýgja vatnið en getur hins vegar spillt því um leið. Þar
sem hraunið er óvarið á t.d. fuglaskítur greiða leið niður í neysluvatnið með
tilheyrandi mengun (sjá nánar um nauðsynlegar úrbætur til að tryggja heilnæmi
vatns neðar).
Myndir. Eystra vatnsból og svæðið fyrir neðan. Ljósmyndir úr vettvangsferð sumarið 2013:
Úrtakspípan úr vatnsbólinu er mjög ofarlega og svo er henni framlengt
niður í tunnuna. Guðmundur Brynjúlfsson
benti í vettvangsskoðun í sumar á að þessi lykkja sé ávísun á vandræði því
þarna getur auðveldlega safnast fyrir loft sem virkar eins og tappi í
rörinu. Guðni segir ástæðu þessarar
útfærslu hafa verið klapparhaft í skurðinum.
Guðmundur hefur bent á að hann telji að færa þurfi úrtakið mun neðar til
þess að þetta virki almennilega. Auk
þess stingst upp úr vatninu loki sem sé ekki heppilegt.
Myndir. Úrtakspípa í eystra vatnsbóli:
Safntankur eystra
svæðisins tekur 4500 lítra en að sögn Guðna má gera ráð fyrir nokkur þúsund lítrum
að auki í vatnstökusvæðinu sjálfu (hraun er umhverfis tunnur eins og fram kemur
að ofan). Bláa tunnan að neðan (sjá
einnig á efstu mynd hæra megin) er í raun op niður að vatnsgeymi sem er án
yfirfalls. Þetta er viljandi gert að
sögn Guðna til þess að nýta fallhæð frá vatnsbólinu og einnig þann forða sem í
því er. Vatnsgeymirinn er alveg lokaður
og því eins og hluti af "rörinu", og uppúr honum krani til þess að
hleypa af lofti.
Myndir. Safntankur á vestara vatnsbóli er undir þrýstingi. Á því er lofttæmiloki (einvirkur). Ljósmyndir úr vettvangsferð sumarið 2013:
Myndir. Loki á vatnslögn frá safntanki eystra svæðis. Þarna má loka fyrir rennsli frá vatnsbólinu:
Vestara vatnsból og veita
Vestara vatnsbólið
þjónar lóðum 3-21. Helstu stofnar sjást
á myndinni að neðan.
Vatnsból vestara
svæðis er afgirt. Þar eru tvær tunnur,
sú efri frá 1986 (að sögn Guðna) en sú neðri var sett eitthvað síðar. Guðni segist þrífa tunnurnar annað hvert ár
því þar myndast gróður. Í kringum hvora
tunnu er drengrjót, sennilega um 1/2 meter út frá hvorri tunnu.
Mynd. Vestara vatnsból:
Myndir: Séð ofan í efri tunnuna í vestara vatnsbóli.
Úr vestara vatnsbóli rennur vatn um 100 mm lögn í tank frá
1986 og úr honum í nýjan tank, þ.e. ef vatnsnotkun er þannig að lækkar í eldri
tanki. Annars stendur vatnið kyrrt í
nýrri tankinum.
Mynd. Virkni tankakerfis vestara vatnsbóls (skv. útskýringum Guðna):
Myndir. Horft niður í eldri tanka á vestara svæði í vettvangsferð sumarið 2013:
Myndir. Séð ofan á og niður í nýja tankinn á vestara svæðinu:
Myndir. Fyrir neðan vatnstanka vestara svæðis er brunnur með 4 krönum þar sem loka má fyrir vatn frá vatnsbólinu. Á myndinni til hægri má sjá áætlað staðsetningu yfirfalls frá tönkum vestara svæðisins. Grafið var frá því í sumar til að mæla rennsli:
2. Heilnæmi vatns og starfsleyfi
Vatnsveita
Múlabyggðar hefur ekki starfsleyfi. Árið
2007 óskaði Guðni eftir úttekt Heilbrigðiseftirlits Vesturlands (HeV) vegna
deiliskipulags sem þá var í vinnslu sem gerði ráð fyrir mun meiri og
vatnsfrekari byggð á svæðinu en nú er (stærri sumarhús, hesthús, bílskúrar
o.s.frv.). Veitunni var þá synjað um
starfsleyfi og hefur ekki öðlast það síðan.
Hér verður sagan rakin í grófum dráttum hvað varðar aðgerðir
Heilbrigðiseftirlits Vesturlands (HeV) og félagsins.
24. maí 2007 Heilbrigðisfulltrúi
sendir Guðna bréf um niðurstöðu úttektar á vatnsveitunni. Þar er ástand vatnsveitunnar reifað og endar
bréfið með því að segja:
,,Heilbrigðiseftirlit Vesturlands getur ekki
að óbreyttu gefið út starfsleyfi fyrir vatnsbólin sem þjóna frístundabyggðinni
í Múlabyggð og varar eindregið við beinni neyslu þess þar til fullkomnar
endurbætur hafa átt sér stað. Þess ber
að geta að eigandi vatnsveitu er ábyrgur fyrir gæðum vatnsins og ber jafnframt
að greina neytendum frá erfiðleikum sem kunna að koma upp vegna gæða vatnsins“.
Ekki
er vitað til þess að Guðni hafi látið vita um þess niðurstöðu en
sumarhúsaeigandi frétti af þessu fyrir tilviljun frá framkvæmdastjóra
Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og sendi þá félagið þær upplýsingar til
félagsmanna.
12. júní 2008 Sveinn
Guðmundsson (hrl) sendir Guðna bréf fyrir hönd sumarhúsaeigenda þar sem Guðna
er gefinn lokafrestur til 1. júlí til þess að efna loforð sín um úrbætur á
vatnsveitu.
23. okt 2008 Sveinn
Guðmundsson (hrl) sendir bréf þar sem hann segir Guðna ekki hafa gert neinar
úrbætur og málinu verði skotið til opinberra aðila til úrlausnar.
21. apríl 2009 HeV
sendir Guðna bréf þar sem vísað er í bréf dags. 24. maí 2007 þar sem gerðar
voru athugasemdir við vatnsbólin tvö. Í
bréfinu telur HeV Guðna ekki hafa orðið við kröfu HeV um endurbætur á
vatnsbólunum. Þá hafi ekki verið sótt um
starfsleyfi fyrir vatnsbólin þrátt fyrir að þau þjóni langtum fleiri en 20
frístundahúsum. Í bréfinu er Guðna
tilkynnt samþykkt frá fundi heilbrigðisnefndar Vesturlands fyrr um vorið en þar
segir: ,,Eiganda vatnsbóla skal sækja um
starfsleyfi til heilbrigðisnefndar Vesturlands fyrir 10. maí n.k. að viðlagðri
formlegri áminningu. Jafnframt skal hann
ganga þannig frá vatnsbólum að þau verði ekki fyrir yfirborðsmengun“.
16. júlí 2009 HeV
sendir Guðna bréf þar sem vitnað er í bréfið frá 21. apríl og sagt að erindinu
hafi ekki verið svarað. Málið hafi verið
tekið fyrir á stjórnarfundi heilbrigðisnefndar Vesturlands hinn 13. maí og
samþykkt að veita honum formlega áminningu.
Honum er þá gefinn lokafrestur til að sækja um starfsleyfi fyrir vatnsból
Múlabyggðar ásamt gögnum sem skýra gerð þess og hönnun. Þar segir: ,,Verði ekki orðið við kröfu þessari fyrir 1. ágúst 2009 mun málið
tekið fyrir í heilbrigðisnefnd með skírskotun til þvingunarúrræða í VI. kafla
lagna nr. 7/1998...“.
6. okt 2009 HeV
berst bréf þennan dag frá Guðna sem dagsett er 11.maí 2009 þar sem Guðni
upplýsir að á árinu 2008 hafi verið gerðar endurbætur á vatnsveitunni m.a. sett
niður safnþró, tankar hreinsaðir o.fl.
Þá kemur fram í bréfi Guðna að ,,það
skal tekið fram að ekki er vitað til þess að yfirborðsmengun sé í vatnsbólum á
Grímsstöðum en þegar sýni hafa verið tekin hefur ekkert bent til þess“. Í tölvupósti frá HeV til formanns félagsins í kjölfar móttöku
bréfsins og fundar með Guðna kemur fram að skv. upplýsingum frá Guðna hafi bæði
vatnsbólin sem þjóna Múlabyggð verið lagfærð frá því formleg úttekt fór fram
vorið 2007. Brunnar hafi verið þrifnir
og sótthreinsaðir og nýr 3600 l safngeymir settur niður við Bjarnhóla árið
2008. Þá hafi verið settur niður 4500 l
safngeymir við vatnsbólið árið 2009. HeV
tekur þó fram að ekki sé búið að girða af vatnsbólið og engar sýnatökur hafi
farið fram.
16. júlí 2010 HeV lætur taka sýni úr loftkrana í brunni
rétt fyrir neðan safnbrunna á eystra
svæði.
20. júlí 2010 Framkvæmdastjóri
HeV hefur samband við Guðna símleiðis og tjáir honum niðurstöðu sýnatöku. Í sýninu var að finna 11 kólígerða og 11
e-coli gerla auk þess sem gerlafjöldi við 22°C var hár (320). Þar fór framkvæmdastjóri HeV fram á við Guðna
að hann varaði neytendur við vatninu.
22. júlí 2010 Framkvæmdastjóri
HeV kemur á svæðið og kemst að því að eigendur hafa ekki verið varaðir við.
23. júlí 2010 HeV
sendir Guðna bréf þar sem fram koma niðurstöður sýnatöku þann 16. júlí. Þar segir m.a.: ,,þegar
kólígerlar finnast í vatni bendi allt
til þess að yfirborðsvatn hafi komist í vatnsból og þá er hætta á saurmengun og
mengun af völdum annarra gerla og örvera sem geta valdið sjúkdómum“. Þá segir hann að: ,,með því að tilkynna ekki neytendum vatns um þær hættur sem séu
samfara því að neyta vatnsins hafir þú gróflega brotið ákvæði
neysluvatnsreglugerðar og matvælalaga nr. 93/1995.“ HeV fer fram á það við Guðna að vatnsbólum
sem þjóni Múlabyggð verði lokað þegar í stað og ekki opnuð á ný fyrr en gerðar
hafi verið ráðstafanir til að tryggja gæði vatnsins og að formleg úttekt hafi
farið fram af hálfu heilbrigðisfulltrúa.
Sama
dag sendir formaður félagsins bústaðaeigendum aðvörun.
1.9.2013 Stjórnarmaður tekur sýni úr
krönum húsa á vestara og eystra svæði og sendir í rannsókn hjá Sýni hf. Farið var eftir öllum reglum um sýnatöku
(sótthreinsuð glös, kranar sótthreinsaðir, vatn látið renna lengi á undan,
sýnum haldið köldum og komið í greiningu innan sólarhrings).
6.9.2013 Niðurstöður sýnatöku liggja fyrir
(sjá aftast í þessari skýrslu). Sýnið á vestara svæðinu reynist vera í lagi með tilliti til
neysluvatnsreglugerðar (reglugerð 536/2001) en í sýninu af austara svæðinu var
heildargerlafjöldi yfir mörkum (152 /ml en viðmiðið er 100) og kólígerlafjöldi
sömuleiðis (33/100 ml en viðmiðið er 0/100 ml). Enginn kólígerill mældist í sýninu af
vestara svæðinu en örverur voru 82/ml.
Formaður félagsins sendir í kjölfarið tölvupóst til sumarhúsaeigenda með
niðurstöðum sýnatöku þar sem varað var við neyslu og minnt á að veitan hafi
ekki starfsleyfi.
Þess ber að lokum
að geta að í spurningakönnun sem send var félagsmönnum í ágúst 2013 þar sem spurt var um ýmislegt
sem tengist vatnsveitunni í Múlabyggð svaraði eigandi bústaðar á austara svæði
að fyrir lægi sterkur grunur um sýkingu af völdum sníkjudýrsins Cryptosporidium
hjá tveimur barna hans eftir neyslu vatns úr eystra vatnsbóli.
3. Lágmarksúrbætur til að tryggja heilnæmi vatns
Það er ljóst að frá
vorinu 2007 hafa verið gerðar ákveðnar úrbætur við vatnsbólin í Múlabyggð eins
og kemur fram í kaflanum að ofan. Til að
mynda hefur verið bætt við safntönkum og næsta umhverfi safntunna (vatnsbóls)
hefur verið girt af. Þó eru enn ýmsir
gallar við frágang tanka og búnaðar sem gerir það að verkum að heilnæmt vatn
verður ekki tryggt. Algjörar
lágmarksaðgerðir til þess að auka líkur á heilnæmu vatni telur stjórn félagsins
vera eftirfarandi:
Eystra vatnsból
Setja
þyrfti plastdúk yfir púkkið og hækka tunnur yfir vatnsbólinu. Þá þyrfti að setja þéttan jarðveg amk. 2
metra út fyrir tunnur í allar áttir og tyrfa yfirborð. Best er að láta yfirborðið halla aðeins á
rásum sem þá mynduðust beggja vegna tunnunnar.
Þessar rásir myndu síðan gegna hlutverki farvegs yfirborðsvatns sem
getur orðið talsvert í leysingum, en eins og þetta er núna virkar hraunpúkkið
sem svelgur. Slíkur svelgur er góður til
þess að drýgja vatnið en spillir því því
miður um leið. Það þarf ekki nema
eitt fuglsdrit ofan á hraunpúkkið sem svo skilar sér niður í vatnstökuna með
rigningarvatni til þess að skapa mengun í vatnsbólinu.
Vestara vatnsból
Raðtengja
þyrfti safntankana tvo til þess að tryggja endurnýjun vatnsins. Í dag er fyrirkomulagið þannig að tankurinn
sem settur var árið 2007 er tengdur til hliðar og verða vatnsskipti í honum
afar takmörkuð þegar vatnsnotkun er lítil.
Því getur sama vatnið staðið þar lengi.
Þá er nauðsynlegt að hylja hann frá sólarljósi. Auk þess þarf að
hækka neðri tunnuna á vatnstökusvæði því inn í hana kemst auðveldlega
yfirborðsvatn eins og er (sjá mynd til hliðar).
4. Vatnsleysi og vatnamælingar
Sumarhúsaeigendur í
Múlabyggð hafa margir glímt við vatnsleysi undanfarin ár. Margar kenningar hafa verið um vatnsleysið og
mismunandi skoðanir bæði félagsmanna og Guðna.
Bent hefur verið á eftirfarandi möguleika:
- - Vatnsbólin sem nýtt eru gefi ekki nóg
- - Sumarhúsaeigendur ofnoti vatn
- - Lekar séu í kerfinu
- - Lekar séu á heimæðum
- - Lega stofnlagna eða heimæða sé þannig að loft safnist fyrir sem hamli rennsli
Árið 2013 var
tvennt gert til þess að reyna að átta sig á vandanum; annars vegar að
kortleggja vatnsleysið og hins vegar að hefja vatnamælingar úr vatnsbólum.
Kortlagning vatnsleysis
Í ágúst 2013 var
send út spurningakönnun til sumarbústaðaeigenda í Múlabyggð þar sem spurt var
um ýmsa þætti er varða neysluvatn.
Svarhlutfall var 65%. Ein
spurningin hljóðaði svo: ,,Hefur orðið
vart við vatnsleysi í þínum bústað“ (svar: já eða nei). Að neðan má sjá hvar vitað er að hafi orðið vart
við vatnsleysi og hverjir segjast ekki hafa orðið varir við það. Niðurstaðan byggir alfarið á könnuninni nema
fyrir lóðir 17, 21 og 28 en þar vita stjórnarmenn til þess að eigendur hafi
glímt við vatnsleysi.
Algengasta svarið við spurningunni hvenær fólk
glímdi við vatnsleysi var: ,,þurrkatíð á sumrin“ og virðist sumarið 2012 hafa
verið einkar slæmt á báðum svæðum.
Sumarið 2013 varð vart við vatnleysi á vestara svæðinu (um og upp úr
verslunarmannahelgi) en ekki varð vatnslaust á austursvæði svo vitað sé.
Vatnamælingar
Stjórn
félagsins ákvað í sumar að finna leiðir til þess að mæla rennsli úr
vatnsbólunum. Það var gert með
eftirfarandi hætti:
Á vestara svæði var grafið frá yfirfalli
í skurði og vatnamæling framkvæmd með því að láta vatnið þar renna í fötu og
tíminn tekinn sem tók fötuna að fyllast.
Áður en það var gert var lokað fyrir krana í kranakistu til þess að loka
fyrir rennsli vatns inn í kerfið (frá vatnsbóli). Þannig ætti vatnið sem fer á yfirfall hverju
sinni að svara til þess vatns sem rennur inn í vatnsbólið. Nokkrar mælingar voru gerðar haustið 2013 og
má sjá niðurstöður þeirra á grafinu á næstu síðu.
Á austara svæði er ekki
yfirfall á vatnsbólinu enda er safntankurinn þar undir þrýstingi. Því var farið í þá aðgerð að koma krana á
tankinn og um leið var settur tvívirkur lofttæmiloki sem ætti að gera kerfinu
gott. Vatnamæling var svo framkvæmd á
eftirfarandi hátt: skrúfað var fyrir
krana í brunni fyrir neðan safntank til að ekkert rynni til bústaða. Því næst var skrúfað frá krana á safntanki og
fundin sú buna sem varð til þess að yfirborð í tunnu í vatnbóli hélst
stöðugt. Aðeins hefur verið framkvæmd
ein slík mæling og má sjá niðurstöðu hennar á grafinu að neðan.
Myndir. Við vatnamælingar á eystra vatnsbóli í haust:
Eins og sést
virðist núverandi vatnsból á vestara svæði bjóða upp á lítið vatn og þarf því ekki mikla notkun til þess
að vatnsbirgðir klárist án þess að nóg bætist í (sbr. vatnsleysi um
verslunarmannahelgi síðastliðið sumar) Þá er ekki þar með sagt að ekki sé hægt
að afla meira vatns en vatnsbólið gefur í það minnsta ekki nóg eins og það er í
dag. Minni reynsla er komin á mælingar á
austara vatnsbóli en mælingum verður framhaldið á báðum stöðum á næstunni og
liggur því vonandi skýrari mynd fyrir í vor.
Það er þó ljóst að fyrstu mælingar gefa ekki tilefni til mikillar
bjartsýni og benda þær jafnframt til þess að ,,lekum lögnum bústaðaeigenda“ eða
,,ofnotkun“ verði ekki einum um kennt.
5. Framkvæmdir 2013
Haustið 2013 var farið í eftirfarandi framkvæmdir
sem Félag bústaðaeigenda í Múlabyggð hefur staðið straum af:
1. Austara svæði.
Komið
var fyrir t-stykki með krana og tvívirkum lofttæmiloka á safntankinn á eystra
vatnsbólinu til þess að hægt væri að meta rennsli úr því og minnka möguleg
loftvandamál. Einnig var sett steinull
til þess að einangra viðkomandi brunn sem og næsta brunn fyrir neðan.
2. Vestara svæði
Farið var í ,,lofttæmiaðgerðir“ til að reyna að bæta rennsli á
vestursvæði. Pétur og Haraldur grófu í
haust niður á vatnslögnina inni á lóð hjá Pétri. Þrýstingur hjá Haraldi og Pétri jókst við
þetta og einnig kom vatn hjá Braga sem hafði verið
vatnslaus. Aðgerðin skilaði hins
vegar ekki vatni hjá Engilbert. Haraldur og Engilbert gengu um lóð hans og
áætluðu hvar aðalvatnslögnin á hans lóð lægi og hallamældi lóðina. Skv. því virtist vera pokalögn inni á lóðinni
hjá honum og sennilega önnur þar sem lögnin fer í gegnum veginn. Í september fóru Björn og Haraldur tvær
helgar í röð og grófu inni á lóðinni hjá Engilberti og reyndu að grafa niður á
lögnina, þar sem Guðni taldi að hún ætti að vera. Þar er skarð og hjólför í
gegnum trjágróðurinn og þar ætti lögnin að liggja hæst, inn á lóð Engilberts.
Engilbert var með þeim í seinna skiptið. Þeir fundu ekki lögnina þrátt fyrir
gríðarstóra og djúpa holu. Mikill vatnselgur var í holunni og meira en meters
dýpi þegar ekki var ausið. Í seinna skiptið var leigð vatnsdæla. Í október var fengin grafa til að leita að
vatnslögninni inni á lóðinni hjá Engilbert . Engilbert var með Haraldi og létu
þeir grafa tvær tilraunaholur til að finna lögnina og að lokum þá þriðju inni í
trjágróðri við hlið holunnar sem Haraldur og Björn höfðu grafið og fannst
þar lögnin. Sett var lofttöppun á lögnina en það kom ekki mikið loft en
þegar Haraldur lét renn a eftir að búnaðurinn var kominn upp, kom talsvart loft með
vatninu. Þessi aðgerð lagaði ekki vatnsleysið hjá Engilbert en hjá Haraldi
kominn allgóður þrýstingur.
Þá
hefur Haraldur keypt tvær samsetningamúffur fyrir 63
mm lögn, þannig að ef óhapp verður á aðallögnum er til búnaður til viðgerða.
No comments:
Post a Comment